Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Verðlag á golfgræjum á Íslandi

Það er gaman að bera saman verð á mismunandi hlutum hér á Íslandi við önnur lönd.  Þar sem ég er í golfi og er að velta fyrir mér nýju setti þá var það ekki úr vegi að bera saman það sem ég hafði fengið í hendur hér og fara á netið og sjá hvað sömu græjur kostuðu t.d. í USA.  Ég ákvað að velja mér Ben Hogan Apex sett sem kostar 94.000 krónur hér (ein verzlun ætlaði að rukka mig reyndar 97.000) og vildi hafa þetta í nýjum poka og fann Ogio pokann sem mig langaði í á 24.000 krónur.  Saman gerir þetta 118.000 krónur.

Gengi dollars í dag er 59,71. Ef við skoðum svo nákvæmlega sama sett á vef verzlunar sem er rekin víðsvegar um Bandaríkin þá kostar umrætt sett þar 749$, umreiknað í krónur 44.723.  Sami Ogio poki er til þar og hann kostar 149$, sem gera 8.897.  Samanlagt er þetta 53.620 sem er rúmlega helmingi ódýrara en að kaupa þetta  hér.  Svo er ég að kvarta undan matarverðinu ;)


Verðlag í matvöruverzlunum

Fyrir uþb 15 árum sat á á skólabekk í HÍ og hlustaði á fyrirlestur Ágústar Einarssonar sem þá var að kenna okkur 1. ársnemum í viðskiptafræði rekstrarhagfræði.  Hann var mjög vel að sér í fræðunum og kom þessu vel frá sér.  Átti hann það oftar en ekki til að ræða um nálgun Jóhannesar Jónssonar inn á smásölumarkaðinn á Íslandi og hvernig hann hafði séð tækifæri sem aðrir hefðu virt að vettugi.  Tækifærin fólust m.a. í því að skera niður og spara eins og mögulegt væri kostnað í kringum verzlunarrekstur og tryggja þar með lægra verð til neytenda.  Mér fannst þetta stórmerkilegt og ákvað að skella mér eina ferð í Bónus, bara til að skoða hvað maðurinn væri að fara.  Búðin sem ég valdi var í Hafnarfirði, gamla Kostakaupshúsið ef einhver man eftir því.  Það var eitthvað til í því sem Ágúst var að segja, húsnæðið bar það með sér að vera ódýrt, lítið verið gert til að gera það aðlaðandi og gangarnir milli rekka voru það þröngir að varla var hægt að komast með 1 kerru þar á milli hvað þá 2.  Vöruflutningarbretti voru á víð og dreif í búðinni með vörunum á og hafði verið rétt svo tekið utan af þeim áður en þau voru keyrð inn í búðina og verðmerkt.  Það voru á köflum bretti upp í hillum.  Þjónusta var síðan enginn, og ekki yrt á mann á kassa og helst reynt að hrúga vörum kúnnans á eftir manni yfir manns eigin svo mikill var hamagangurinn. Já og kassarnir voru bara 2-3 þannig að langar raðir mynduðust.

Í dag er starfrækt Bónus verzlun í hverfinu mínu við Velli í Hafnarfirði.  Það er satt best að segja talsvert annað hljóð í strokknum þar en í gamla Kostakaups-Bónus frá 1992.  Mikið pláss er í þessari búð og greinilega ekkert verið til sparað þegar húsnæðið var skipulagt.  Þetta er björt og fín verzlun og sjaldgæf sjón að sjá þar vörubretti nema eitthvað sérstakt tilboð sé í gangi.  Gangar milli rekka eru breiðir og hreinlega ánægjulegt að verzla þar plús það að afgreiðslufólkið er allt hið hressasta og hjálplegasta, það er líka ekki af skornum skammti eins og fyrir 15 árum.  Í raun minnir þessi verzlun mun meira á Fjarðarkaup eða 10-11 heldur en þá Bónus verzlun sem byrjað var með fyrir einhverjum áratugum. Þannig að eitthvað hefur reikningsdæmið snúist við á þessum 15 árum og kostnaður sem skera átti niður til að skila lægra verði, lekið inn aftur af því er virðist.  Getur verið að það sé ástæðan fyrir því að við séum að kvarta undan hærra vöruverði, því einhversstaðar verða tekjur að koma á móti gjöldum.  Eða það vildi Ágúst alla vegana meina.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband