Velkominn í kerfið

Lenti í því um daginn að leggjast inn á spítala.  Var þar í tæpa viku.  Umhugsun og hjúkrun var með besta móti en þegar kom að greiningu og læknaviðtölum þá leið mér eins og skinnkupakka á færibandi.  Félagi minn sem er ansi vel tengdur inn í heilbrigðisgeirann bauð mig "velkominn í kerfið, svona væri þetta bara".  Er það nauðsynlegt og mun þetta breytast með nýju hátæknisjúkrahúsi?  Þetta mætti eflaust laga án þess að tengja það húsnæði eða hátækni.


Leikmannakaup Liverpool

Nú hefur Benitez keypt 2 unga "efnilega" leikmenn frá Ungverjalandi.  Leikmenn sem eiga að fara í varaliðið næsta síson og bundnar miklar vonir við þá.  Minnir óneitanlega á kaup Houllier á Le Tallec og Pongolle fyrir nokkrum árum. Má segja að það hafi verið upphafið að endalokum Houllier hjá Liverpool.  Vonandi sjáum við merkilegri kaup á leikmönnum til Liverpool á næstunni.

Í samræmi við hin Norðurlöndin

Í þeirri lækkun skatt og gjalda núna 1. mars hefur yfirlýst markmið stjórnvalda verið að samræma matarverð við það sem er í gangi á Norðurlöndum.  Ég bjó reyndar í Danmörku í rúm 2 ár, flutti þaðan árið 1994.  Það kom mér á óvart við heimkomuna hversu gríðarlegur munur er á verði matvæla hér vs. Danmörk.  Þetta kemur oft fram í könnunum sem Stöð 2 og RÚV eru með af og til þar sem starfsmenn stöðvanna í Danmörku eða öðrum löndum fara og versla sambærilega körfu og er versluð á sama tíma hér á landi.  Munurinn er oftast 1/3.  Það sem mér finnst oft gleymast í þessum samanburði er það hversu þroskaður matvælamarkaðurinn í Danmörku (sem dæmi) er.  Þetta er ekki til að bæta ástand Íslands í þessum samanburði, því verðið á "körfunni" færi talsvert lækkandi ef þessi þroski væri tekinn með í reikninginn.  Sem dæmi þá eru ákveðinn tilboð í gangi á nokkra vikna fresti í sumum verslunum.  Ég verslaði t.d. mikið í ISO súpermarkaðnum og át óskaplega mikið af pasta.  Ég var búinn að komast að því að ISO raðaði upp pastatilboði á c.a. 3ja vikna fresti.  Þá var yfirleitt mikill afsláttur af öllu pasta og í versta falli fékk maður 1 pakka gefins ef maður keypti 3.  Þannig gat maður hamstrað pasta á 3ja til 4ja vikna fresti og lækkað matarreikninginn.  Sama máli gegnir um aðrar matvörur hvort sem það er ávextir eða álegg.  Það var ósjaldan að maður færi með heilan poka af appelsínum (10 stykki) á gjafverði eða fengi 4 tegundir af áleggi (hægt að velja á milli) á 40 danskar (rúmlega 400 krónur).  Þetta er enn svona og eftir að hafa skoðað tilboðsbækling ISO fyrir síðustu helgi hafa hlutirnir lítið  breyst á þeim  bænum.  Þeir bjóða ennþá áleggið, er reynar komið í um 45 krónur, en það er hægt að skola því niður með 24 Heineken dósum á 89 krónur danskar (1050 ÍKR).

VSK lækkun af matvöruverði

Fór að versla undir formerkjum lækkaðs virðisaukaskatts í gær í Bónus.  Heildarupphæð innkaupakerrunar var 2.956 krónur.  Samkvæmt reikningnum var lækkun vegna VSK breytinga 182 kr sem gera tæp 6% af heildarupphæðinni.  Karfan samanstóð af helstu nauðsynjavörum, sbr. mjólkurvörum (ostur, jógúrt, mjólk), ávöxtum, brauði, áleggi og öðru.  Tekið skal fram að ekkert sælgæti, kex né sambærilegt var í körfunni. 

Umferðin

23082006.jpg

Það að ferðast í bíl frá Hafnarfirði til Kópavogs á morgnana virka daga er allt annað en einfalt.   Að jafnaði taka þessi herlegheit að lágmarki 10-15 mínútur þrátt fyrir að um einungis sé um fáeina kílómetra að ræða.  Þetta getur auðveldlega farið vel yfir það. 

Eftir tvíbreikkun Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð virtist málið leysast að einhverju leiti.  En það var eingöngu til þess að færa tappann nær Kaplakrika þar sem einbreiður vegur tók við í gegnum Garðabæ.  Nú er fyrrnefnd tvíbreikkun varla farin að anna umferð og mega ekki lítil skakkaföll eiga sér stað til að teppur eins og meðfylgjandi mynd gefur til kynna fylgja í kjölfarið.  Ég bind miklar vonir við þá tvíbreikkun sem á sér stað núna í gegnum Garðabæinn en það virðist vera eins og þetta sé verk sem ætli aldrei að enda.  Allavega hefur þar lítið gerst fyrir leikmann eins og mig í allt sumar fyrir utan undirbúning mislægra gatnamóta við IKEA skrímslið.  Annað hefur legið nánast óhreyft.   Er ekki tími til kominn að klára?

En aftur að umferðinni.  Þegar ekið er inn í minn heimabæ Hafnarfjörð er merkilega þröng aðkoma sem mætir manni.  Reykjavíkurveginn er búið að mata með eyjum, bílastæðum og breikkuðum gangbrautum þannig að það þarft framhaldsnámskeið í ökuleikni til að koma sér niður að miðbæ.  Þetta verðu seint kölluð skemmtileg heimreið, eins og þeir segja 'there is no second impression'.  Ef við Hafnfirðirngar ætlum að markaðssetja okkar bæ sem vænlegan kosti fyrir framtíðar íbúa þá ættum við að byrja á byrjuninni sem er innkeyrslan inn í Hafnarfjörð. 


Tiger á toppnum

Fylgdist með Tiger vinna enn eitt mótið í gærkvöldi.  Að sjálfsögðu vill maður hafa spenn í þessu og svo ekki sé minnst fram á síðustu stundu.  Hinsvegar virðast aðrir golfarar ekkert vera á þeim buxunum og gefast upp á síðasta degi eins og vanalega.  Menn verða að spýta í lófana ef þeir ætla að halda í við Tiger í þessum ham. 

Sumarið er komið aftur!

Jæja loksins kom sumarið aftur eftir hektískt frostakast.  Það sér talsvert á gróðri og völlurinn minn er orðinn gulari en hann var fyrir 2 vikum síðan, sérstakelga í karganum.  Það er óhætt að segja að gróður hefur hoppað c.a. 2 vikur til baka í þessu kasti.  Hinsvegar var þetta ágætt þar sem ég spilaði einn minn bezta hring um helgina, 77 högg á Hvaleyrinni.  Ekki slæmt og vonandi fyrirheit um gott golfsumar.  Einnig prófaði ég Setbergsvöllinn á föstudaginn.  Hann á aðeins eftir í land með grínin, en þau voru að mínu mati mjög mishröð.  Hinsvegar býður Setbergið upp á skemmtilegt landslag fyrstu 2 holurnar og síðan þær holur sem liggja að hrauninu.  Einnig býður 9/18 alltaf upp á djarfan leik þar sem hún er frekar stutt par 5. 

 


Ný golf bók

Sem mitt fyrsta blogg langar mig að ræða um bókina 7 laws of the golf swing.  Þetta ætti að gefa nokkuð góða mynd af því hvernig blogg verða birt hér.

Það má segja að þessi bók byggi svolítið á 5 fundamentals eftir Ben Hogan og er vitnað í hana í innganginum.  Hér er farið mjög nákvæmlega yfir grip, stöðu, fótavinnu og baksveiflu svo eitthvað sé nefnt.  Myndirnar í bókinni eru á köflum magnaðar og gefa mann góða mynd til að nota þegar komið er út á æfingasvæði.  T.d. er myndin af gasi sem lekur í gegnum grip mjög góð sem og mynd af gormum í stað fóta í squat æfingunni. 

Þeir sem eiga eða hafa lesið 5 fundamentals ættu að næla sér í eintak af 7 laws þar sem hún er nokkurs konar add on á þá bók.

Þessi bók fær nánast fullt hús hjá mér, það sem að mínu mati dregur hana niður er of mikið tal um læknisfræði sem á köflum er villandi og ekki alveg rétt.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband