Mynd af Reykjavík

Viðhengd mynd var tekin á leiðnni til vinnu í morgun, í miðbæ Reykjavíkur.  Hef búið í úthverfum og ekki sótt miðbæinn síðan á djammárunum í kringum 90-og-eitthvað.  Þetta er eins og að rekast á gamlan vin sem maður hefur ekki séð í áratug.  Hinsvegar það að snjórinn sé farinn og tekið að birta meira gerir þetta mun þægilegra en fyrir nokkrum vikum.  Miðað við spá næstu daga er spurning hvort að vorið sé að koma snemma eins og undanfarin ár.  Vonum að snjó og skapsveiflum í veðri fari að linna. DSC00126


Stærðfræðikennsla í grunnskólum

Það þarf eitthvað að fara að enduskoða hvernig nemendum í grunnskóla eru kennd grundvallaratriði í stærðfræði í dag.  Kennslugögn eru nánast ómöguleg og aðferðirnar sem verið er að nota ekki boðlegar.  Það mætti segja að verið sé að úthýsa stærðfræðikennslu í grunnskólum inná heimili nemenda.  Ber það ekki vott um mismunun?

Innkaup á netinu

Ég mæli með því að sérstakt ráðuneyti, nefnd eða stuðningshópur verði settur á laggirnar fyrir þá sem versla á netinu.  Sérstaklega þegar verslað er á netinu utan Íslands.  Það er ekki nóg með að sver flutningskostnaður bætist oft á tíðum við vöruna, heldur er smurt á gjöldum hér og þar við komuna til landsins. Hvað er svona STÓR-hættulegt við það að venjulegt fjölskyldufólk geti farið í beina samkeppni við verslanir hér á landi og keypt vörur í gegnum smásöluaðila erlendis hagstæðar en verið er að bjóða hér í verslunum?  Er það eitthvað annað en heilbrigð samkeppni?  Þarf ríkið endilega að fara að setja einhverja flókna tálma á innflutning á einum DVD disk hjá mér svo að ég hrökklist frekar í Elko eða Hagkaup og kaupi hann frekar þar?  Eða þá velji skólatösku á 11.900 í Eymundsson í stað þess að kaupa hana á 500 krónur danskar á netinu?  Er ekki kominn tími á smá samkeppni á þessum markaði og fella niður bullgjöld á fjölskyldur?

(Þetta er síðan fyrir utan það vandamál sem er að fá pakka í gegnum Íslandspóst sem virðist engann veginn anna eftirspurn og hef ég lent í því að endursending á vöru hafi komið á sama tíma heim til mín og upphaflega sendingin.FootinMouth)


Slegið á höndina

Eftir síðustu hækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands er spurning hvort loksins fari fólk að slaka á í sínum fjárfestingum og eyðslu.  Mér finnst persónulega magnað hversu margir "geta" mætt helgi eftir helgi í Smáralind eða Kringluna, eða staðið fyrir utan opnun á nýrri stórverslun og labbað síðan út með "bestu tilboðin". Hvaðan koma allir þessir peningar sem fólk er að eyða?  NB við erum að eyða peningum þegar við borgum, ekki að græða þá eins og sumir vilja halda.

Nú verð ég að viðurkenna að ég flokkast væntanlega í þann hóp sem kallast millistétt, er einhversttaðar í þeim stóra hópi manna sem er að berjast við að greiða greiðslusamningin, leikskólann , matinn í grunnskólanum osfrv.  Það litla sem fellur aukalega til er síðan notað í föt á börnin eða eitthvað annað nauðsynlegt.  Ef ég ætlaði að fara að taka upp þessar æfingar þá þyrfti ég væntanlega að fara að biðja um myndarlegri yfirdrátt, fara að ná mér í plast í fleiri gerðum og þar fram eftir götunum.  Og til hvers?  Er það virkilega svona massíft að geta horft á blue-ray eða setið í upphituð leðursæti í bílnum?

Fyrr eða síðar þá kemur að skuldadögum, og í dag vill Seðlabanki Íslands að við hættum að eyða.  Ég helda að það sé nokkurn veginn ljóst.  Það versta í þessu er að ef þeir sem slepptu því að mæta í Smáralindina um helgina sátu fyrir framan sjónvarpið og horfðu á Silfur Egils í staðinn eru komnir með lausn á þessu skammi frá Seðlabankanum.  Þar var prófessor frá Háskólanum sem vildi meina að aðgerðir SB væru ætlaðar til að lækka verðbólgu en þær aðgerðir skiluðu ekki árangri.  Ástæðan:  Jú verðbólguvísitalan er samsett aðallega úr olíu og fasteignum.  Eitthvað sem við höfum lítil sem engin áhrif á.  Ef þetta tvennt er tekið út fyrir sviga þá er allt hér í lukkunar velstandi og engin vebólga.  Óþarfa vaxtahækkanir trekk í trekk eru teknar með bundið fyrir augun. 

Þar sem fólk er ekki að versla olíu eða fasteignir í Smáralind þá er þetta bara allt í lagi, næstu helgi verður eflaust erfitt að ná í stæði nógu nálægt helstu verslunarkjörnum. Á meðan sit ég heima hristi hausinn og yppi öxlum.


Lýðræði í stjórnmálum

Sem virkur þátttakandi i stjórnmálum frá árinu 2002 spyr maður sig stundum hversu auðvelt er að láta lýðræði vera hluti af hefðbundnu flokksstarfi.  Er það sjálfgefið að stjórnmálaflokkar láti grasrótina blómstra og almenn skoðanaskipti milli flokkssystkina séu grunnur að málefnum og stefnu flokks í t.d. bæjarmálum?  Væntalega væri það kallað umræðupólitík, eða lýðræðisleg stjórnmálaumræða.

Eða er eðlilegra að hafa sterkan leiðtoga sem vísar vegin og "kennir" grasrótinni hvernig á að hugsa?  Leiðtogapólitík væri það væntanlega kallað.

 Í mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum í Hafnarfirði, finnst mér hvorugt fyrirfinnast.  Þar hefur ekki verið virk grasrót sem kastar milli sín stjórnmálaskoðunum, eða nýjustu bæjarmálum svo árum skiptir.  Þar er heldur ekki oddviti eða leiðtogar sem hitta flokksmenn með reglulegu millibili til að ræða málin.  Er það ekki í daglegu tali þá kallað útfararpolitík?


Verðlag á golfgræjum á Íslandi

Það er gaman að bera saman verð á mismunandi hlutum hér á Íslandi við önnur lönd.  Þar sem ég er í golfi og er að velta fyrir mér nýju setti þá var það ekki úr vegi að bera saman það sem ég hafði fengið í hendur hér og fara á netið og sjá hvað sömu græjur kostuðu t.d. í USA.  Ég ákvað að velja mér Ben Hogan Apex sett sem kostar 94.000 krónur hér (ein verzlun ætlaði að rukka mig reyndar 97.000) og vildi hafa þetta í nýjum poka og fann Ogio pokann sem mig langaði í á 24.000 krónur.  Saman gerir þetta 118.000 krónur.

Gengi dollars í dag er 59,71. Ef við skoðum svo nákvæmlega sama sett á vef verzlunar sem er rekin víðsvegar um Bandaríkin þá kostar umrætt sett þar 749$, umreiknað í krónur 44.723.  Sami Ogio poki er til þar og hann kostar 149$, sem gera 8.897.  Samanlagt er þetta 53.620 sem er rúmlega helmingi ódýrara en að kaupa þetta  hér.  Svo er ég að kvarta undan matarverðinu ;)


Verðlag í matvöruverzlunum

Fyrir uþb 15 árum sat á á skólabekk í HÍ og hlustaði á fyrirlestur Ágústar Einarssonar sem þá var að kenna okkur 1. ársnemum í viðskiptafræði rekstrarhagfræði.  Hann var mjög vel að sér í fræðunum og kom þessu vel frá sér.  Átti hann það oftar en ekki til að ræða um nálgun Jóhannesar Jónssonar inn á smásölumarkaðinn á Íslandi og hvernig hann hafði séð tækifæri sem aðrir hefðu virt að vettugi.  Tækifærin fólust m.a. í því að skera niður og spara eins og mögulegt væri kostnað í kringum verzlunarrekstur og tryggja þar með lægra verð til neytenda.  Mér fannst þetta stórmerkilegt og ákvað að skella mér eina ferð í Bónus, bara til að skoða hvað maðurinn væri að fara.  Búðin sem ég valdi var í Hafnarfirði, gamla Kostakaupshúsið ef einhver man eftir því.  Það var eitthvað til í því sem Ágúst var að segja, húsnæðið bar það með sér að vera ódýrt, lítið verið gert til að gera það aðlaðandi og gangarnir milli rekka voru það þröngir að varla var hægt að komast með 1 kerru þar á milli hvað þá 2.  Vöruflutningarbretti voru á víð og dreif í búðinni með vörunum á og hafði verið rétt svo tekið utan af þeim áður en þau voru keyrð inn í búðina og verðmerkt.  Það voru á köflum bretti upp í hillum.  Þjónusta var síðan enginn, og ekki yrt á mann á kassa og helst reynt að hrúga vörum kúnnans á eftir manni yfir manns eigin svo mikill var hamagangurinn. Já og kassarnir voru bara 2-3 þannig að langar raðir mynduðust.

Í dag er starfrækt Bónus verzlun í hverfinu mínu við Velli í Hafnarfirði.  Það er satt best að segja talsvert annað hljóð í strokknum þar en í gamla Kostakaups-Bónus frá 1992.  Mikið pláss er í þessari búð og greinilega ekkert verið til sparað þegar húsnæðið var skipulagt.  Þetta er björt og fín verzlun og sjaldgæf sjón að sjá þar vörubretti nema eitthvað sérstakt tilboð sé í gangi.  Gangar milli rekka eru breiðir og hreinlega ánægjulegt að verzla þar plús það að afgreiðslufólkið er allt hið hressasta og hjálplegasta, það er líka ekki af skornum skammti eins og fyrir 15 árum.  Í raun minnir þessi verzlun mun meira á Fjarðarkaup eða 10-11 heldur en þá Bónus verzlun sem byrjað var með fyrir einhverjum áratugum. Þannig að eitthvað hefur reikningsdæmið snúist við á þessum 15 árum og kostnaður sem skera átti niður til að skila lægra verði, lekið inn aftur af því er virðist.  Getur verið að það sé ástæðan fyrir því að við séum að kvarta undan hærra vöruverði, því einhversstaðar verða tekjur að koma á móti gjöldum.  Eða það vildi Ágúst alla vegana meina.


Er hanttræn hlýnun svindl?

RÚV sýndi í gærkvöldi heimildarmyndina Er hnatthlýnunin gabb? The Great Global Warming Swindle.  Þetta var að mörgu leyti merkilegur þáttur þar sem settar voru fram kenningar um að aukning koltvísýrings í andrúmsloftinu væri ekki ástæða hlýnunar, heldur væri hlýnun jarðar orsök hækkunar CO2 og hlýnunin ætti sér eðlilegar ástæður.  Meginástæða þeirrar umræðu um hnattræna hlýnun samkvæmt þáttarstjórnendum væri að stórum hluta fégræðgi pólitískra afla sem vildu gera allt til að koma sínu efni að.  Þetta teygði sig síðan alla leið inn á fréttamiðla sem gætu ekki lengur hætt að fjalla um málið þar sem fréttaflutningur í dag byggðist á því að hlýnun jarðar væri af manna völdum.

Á sínum tíma sá ég Inconvenient Truth með Al Gore og leist mjög vel á frekar einfalda og þægilega framsetningu hans.  En öfugt við ofangreindan þátt, byggði Gore sýnar kenningar á því að losun CO2 í andrúmsloftið væri orsök hitaaukningar.  Nú er spurning hvor hefur rétt fyrir sér, Gore eða afhjúpararnir?  Og munum við eftir 5-10 ár horfa til baka og segja "Já, djö... að trúa þessu með hlýnunina maður, við hefðum bara átt að kaupa okkur jeppa!".  Eða munum við sjá eftir þessu öllum saman?

 

globalwarming


Hogan hefði ekki kvartað

Um rúmu ári eftir að hafa lent í alvarlegu bílslysi vann Ben Hogan U.S. Open, en fætur hans fóru mjög illa í slysinu.  Hann þurfti á mikilli meðferð að halda fyrir hvern hring, en ræddi það aldrei, heldur spilaði frábært golf þá fáu hringi sem hann spilaði hvert ár eftir slysið.

Það er gaman að bera svona goðsögn saman við kylfinga dagsins í dag sem mega ekki fá eymsl í úlnlið án þess að gera úr því fréttamat.  Mickelson ætti að ræða minna um meiðslin og meira um golfið og láta það tala á vellinum á fimmtudaginn. 


mbl.is Mickelson hefur lítið getað æft vegna meiðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Huldukind í Feneyjum

Eftir að hafa horft á innslag í Kastljósinu nú rétt í þessu um listamann sem tók þátt í Feneyjartvíæringnum fyrir Íslands hönd er ég með eitt alveg á hreinu.  Ég veit ekkert hvað list er lengur!  Umræddur listamaður sýndi huldukind sem hann hafði fengið í gegnum miðil, eða það var kynnt þannig.   Hún var geymd í huldukinda-geymslu sem hann hafði fengið smíðaða fyrir sig.  Svo voru þarna álfaskór sem hann hafði líka fengið unna fyrir sig og þetta var allt eftir þessu.  Á tímabili fannst mér listamaðurinn uppgötva fjarstæðu umræðunnar sem hann var að kynna og fá kjánahroll því hann lék um mig allan tímann sem verið var að sýna frá þessu. 

Það er langt síðan ég keypti mér síðast listaverk, þá málað á striga með olíulitum af listamanni sem hjólaði með það hálfþornað til mín í Kaupmannahöfn til að sýna mér það.  Sjálfur hjólatúrinn hefur eflaust verið list útaf fyrir sig.  Ekki veit ég hvað menn eru að fá fyrir huldukindur og álfaskó í dag, en eitt er víst.  Ég tek ekki þátt í þeirri eftirspurn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband